Uppgjör Brims á þriðja ársfjórðungi 2025
Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 3F 2025
- Vörusala var 111 m€ á fjórðungnum samanborið við 110 m€ á þriðja fjórðungi 2024
- Hagnaður var 29 m€ á fjórðungnum samanborið við 19 m€ á þriðja fjórðungi 2024
- EBITDA var 42 m€ og EBITDA hlutfall 37,3%
- Eignir hafa lækkað um 13 m€ frá áramótum og voru 983 m€ í lok tímabilsins
- Eigið fé þann 30. september 2025 var 505 m€ og eignfjárhlutfall 51,4%
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:
„Afkoma þriðja fjórðungs er góð og eru það tveir þættir sem skipta mestu máli. Veiðar og vinnsla á makríl gengu vel og verð á sjávarafurðum er hátt um þessar mundir. Þegar við horfum til seinustu 12 mánaða er ávöxtun eigin fjár 12%.
Í september var tilkynnt um kauptilboð félagsins í allt hlutafé Lýsis hf. Með kaupunum sér Brim mikil samlegðar- og sóknarfæri bæði tengt hráefnaöflun Lýsis og fyrir Brim til að ná lengra í virðiskeðju sjávarafurða.
Ákveðin óvissa er nú í rekstri Brims þar sem stjórnendur félagsins vita ekki hver veiðigjöld verða á næsta ári, né heldur hver úthlutun aflakvóta í deilistofnum uppsjávartegunda verður. Þegar fyrir liggur hver veiðigjöldin verða á hverja fisktegund á næsta ári mun Brim tjá sig um möglegar afleiðingar fyrir félagið og þá um viðbrögð félagsins ef efni standa til.“
Starfsemin á 3F 2025
Afli bolfiskskipa félagsins var 12 þúsund tonn á þriðja ársfjórðungi en var 14 þúsund tonn árið áður en bolfiskskipum fækkaði um eitt milli tímabila. Í fyrsta skipti í mörg ár fór frystitogari til makrílveiða, en Þerney var við þær veiðar í sumar og gengu þær vel. Afli Þerneyjar nam um 3.500 tonnum af makríl. Frystitogarinn Sólborg var stopp í ágúst vegna viðhaldsverkefna. Landvinnslan gekk vel á tímabilinu og voru afurðaverð góð. Afurðaverð á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum eru áfram góð en stöðug á öðrum sjófrystum afurðum.
Uppsjávarskip félagsins hófu makrílveiðar um miðjan júní og stunduðu þær veiðar yfir sumarið og lauk vertíðinni í lok ágúst. Makrílafli uppsjávarskipa á ársfjórðungnum nam 18.600 tonnum og gekk vinnsla aflans í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði vel. Markaðir fyrir makrílafurðir voru sterkir og verð á afurðum hátt.
Í lok ágúst hófu uppsjávarskipin veiðar á kolmunna og í kjölfarið veiðar á norsk-íslenskri síld. Heildarafli kolmunna á ársfjórðungnum nam 10.300 tonnum, en síldaraflinn nam 10.700 tonnum, þar af voru 3.100 tonn af Íslandssíld.
Markaðir fyrir mjöl og lýsi styrktust lítillega á tímabilinu og sala á frystum síldarafurðum fór vel af stað á sambærilegu verði og á árinu 2024.
Þann 23. september var tilkynnt um kauptilboð félagsins í allt hlutafé Lýsis hf. Kaupverðið nemur 24,7 milljörðum króna eða 173 milljónum evra miðað við gengi þegar samkomulagið var tilkynnt. Lýsi er framleiðslufyrirtæki og framleiðir lýsi og fleiri afurðir úr sjávarafla. Með kaupunum sér Brim samlegðar og sóknarfæri hvað varðar hráefnisöflun Lýsis hf. auk þess sem Brim hefur þá stefnu að færa sig lengra í virðiskeðju sjávarafurða. Kaupin eru háð samþykki stjórna félaganna, hluthafafundar kaupanda og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Rekstur
Seldar vörur námu á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 295 m€ samanborið við 284 m€ árið áður.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 69 m€ eða 23,2% af rekstrartekjum, en var 47 m€ eða 16,6% árið áður.
Fjármagnsgjöld umfram fjáreignatekjur námu 16 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 en voru 14 m€ á sama tímabili í fyrra.
Hagnaður fyrir tekjuskatt á fyrstu níu mánuðum ársins nam 48 m€, samanborið við 28 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2024. Tekjuskattur fyrir sama tímabil nam 9 m€, en var 4 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 40 m€ en var 24 m€ árið áður.
Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 983 m€ í lok 3F 2025. Þar af voru fastafjármunir 809 m€ og veltufjármunir 173 m€. Eigið fé nam í lok tímabilsins 505 m€ og var eiginfjárhlutfall 51,4%, en var 49,1% í lok árs 2024. Heildarskuldir félagsins voru 478 m€ í lok fjórðungsins og lækkuðu um 29 m€ frá áramótum.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 23 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins, en var 22 m€ á sama tíma árið 2024. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 4 m€ og fjármögnunar-hreyfingar voru neikvæðar um 53 m€. Áhrif gengisbreytinga voru neikvæð um 2 m€. Handbært fé lækkaði því um 28 m€ og var 24 m€ í lok tímabilsins.
Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánuði árins 2025 (1 evra = 144,34 ísk) voru tekjur 42,6 ma. króna, EBITDA 9,9 ma. króna og hagnaður 5,7 ma. króna. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2025 (1 evra = 142,4 ísk) voru eignir samtals 139,9 milljarðar króna, skuldir 68,0 milljarðar og eigið fé 71,9 milljarðar.
Hluthafar
Lokaverð hlutabréfa 30. september 2025 var 62,5 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 120 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 1.628.
Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 20. nóvember 2025. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).
Brim hf.
Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.
Fjárhagsdagatal
Fjórði ársfjórðungur 26. febrúar 2026
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.
Attachments

© 2025 GlobeNewswire, Inc. All Rights Reserved.











